Evrópski seðlabankinn tilkynnti í dag að stýrivextir yrðu áfram 1%, líkt og þeir hafa verið í 21 mánuð. Stýrivextir bankans hafa aldrei verið lægri.

Ekki urðu miklar breytingar á gengi evru og skuldabréfamarkaði í kjölfar tilkynningarinnar þar sem ekki var búist við öðru en að stýrivöxtum yrði haldið óbreyttum.

Verðbólga á evrusvæðinu hefur farið hækkandi og er hærri en markmið bankans. Verðbólgamarkmið hans kveður á um að verðbólgu skuli haldið lægri en 2% en þó ekki mikið lægri. Hún mældist 2,4% í janúar.

Markaðsaðilar búast því við að innan tíðar muni seðlabankinn mögulega bregðast við með vaxtahækkunum. Þannig mátti heyra nýjan tón í ræðu Jean-Claude Trichet seðlabankastjóra við síðustu vaxtaákvörðun. Þá sagði hann að bankinn myndi fylgjast grannt með verðlagsbreytingum.