Evrópski seðlabankinn hélt stýrivöxtum óbreyttum í 0,75% í dag. Þetta er í takt við væntingar flestra greiningaraðila en í stýrivaxtaspá Bloomberg-fréttaveitunnar gerðu 56 af 61 hagfræðingi ráð fyrir því að vöxtum yrði haldið óbreyttum. Á sama tíma ákvað bankinn að halda vöxtum á innlánsreikningum í núlli.

Bloomberg-fréttaveitan segir evrópska seðlabankann með Mario Draghi í forsvari gera allt sem í hans valdi standi til að slá á neikvæð áhrif skuldakreppunnar á evrusvæðinu og gera skuldsettum evruríkjum kleift að fjármagna sig með ódýrum lánum. Almennt er gert ráð fyrir því að evrópski seðlabankinn haldi stýrivöxtum óbreyttum út næsta ár.

Bloomberg hefur eftir Ulrich Kater, aðalhagfræðingi DekaBank í Þýskalandi, að hugsanlega muni hagkerfi evrusvæðisins taka við sér á næsta ári. Gangi þær væntingar ekki eftir þá verðir evrópski seðlabankinn að draga fram Plan B og lækka stýrivexti.