Stýrivextir standa óbreyttir í 0,25% á evrusvæðinu þrátt fyrir að verðbólga sé talsvert undir verðbólgumarkmiðum bankans. Tilkynnt var um vaxtaákvörðunina í dag. Í umfjöllun bandaríska dagblaðsins The Wall Street Journal um vaxtaákvörðunina hana endurspegla að ráðamenn á evrusvæðinu dragi lappirnar, þeir séu ekki tilbúnir til að grípa til aðgerða til að koma efnahagslífinu í gang á nú í kjölfar kreppunnar. Aðeins mánuður er síðan vextirnir voru lækkaðir. Á sama tíma var ákveðið að gera enga breytingu á þeim vöxtum sem bankar og fjármálafyrirtæki fá á innstæður hjá evrópska seðlabankanum. Innstæðurnar bera enga vexti og hafa ekki gert það í að verða eitt og hálft ár.

Ættu að dæla fjármagni inn í bankakerfið

Á sama tíma og stýrivextir eru í sögulegu lágmarki á evrusvæðinu mælist verðbólga nú 0,9% og er ekki gert ráð fyrir því að hún breytist mikið á næstunni; hún verði komin í 1,1 á næsta ári og 1,3% undir lok árs 2015. Verðbólgumörk evrópska seðlabankans eru hins vegar 2%. Á sama tíma er við því búist að hagvöxtur þokist upp í 1,5% undir lok árs 2015. Til samanburðar mældist aðeins 0,4% hagvöxtur á evrusvæðinu á síðasta ársfjórðungi.

Dagblaðið segir á vef sínum hagfræðinga mæla með því að evrópski seðlabankinn dæli auknu fjármagni inn í bankakerfið í formi langtímalána í stað skammtímalána. Þótt lán til skamms tíma hafi slegið á lausafjárþörf bankanna þá hafi aðgerðin ekki leitt þess að útlán til fyrirtækja og heimila jukust og standi því fjárfestingar í stað.