Englandsbanki og Seðlabanki Evrópu héldu stýrivöxtum óbreyttum í gær, sem var í samræmi við spár greiningaraðila. Trichet, seðlabankastjóri Evrópu, segir bankann reiðubúinn að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða til að halda verðbólgu í skefjum.

Þrátt fyrir að hafa verið undir auknum þrýstingi að lækka stýrivexti annan mánuðinn í röð – í vikunni kallaði forstjóri Marks & Spencer eftir 50 punkta lækkun – ákvað Englandsbanki í gær að halda vöxtum óbreyttum í 5,5%. Seðlabanki Evrópu hélt stýrivöxtum bankans jafnframt óbreyttum í 4%, enda þótt verðbólga á evrusvæðinu hafi mælst 3,1% í desembermánuði. Vaxtaákvarðanir seðlabankanna komu ekki á óvart.

Samkvæmt skoðanakönnun Bloomberg-fréttaveitunnar töldu 40 af 50 hagfræðingum að stýrivöxtum Englandsbanka yrði haldið óbreyttum, á meðan það var einróma álit 59 hagfræðinga að vextir héldust óbreyttir á evrusvæðinu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf formi hér á vb.is. Þeir sem ekki hafa slíkan aðgang geta sótt um hann hér: http://vb.is/vb/?gluggi=tolublod_umsokn