Englandsbanki hélt stýrivöxtum óbreyttum í 0,5% í dag. Þetta er nokkurn vegin í takt við væntingar. Stýrivextirnir voru keyrðir niður í 0,5% í kjölfar bankahrunsins árið 2008 og hefur ekki verið hróflað við þeim í fimm ár eða síðan í mars árið 2009.

Breska dagblaðið Guardian segir seðlabankann halda sömuleiðis uppteknum hætti í öðrum stuðningi sínum við breskt efnahagslíf, svo sem þeim að dæla peningum inn í hagkerfið.

Blaðið rifjar jafnfram t upp að ekki sé gert ráð fyrir því að stýrivextir verði hækkaðir á nýjan leik fyrr en atvinnuleysi verði komið við eða undir 7%. Þróunin á vinnumarkaði hefur einmitt stefnt hraðbyri í þá átt og er jafnvel búist við að atvinnuleysi verði komið að þeim mörkum síðar á þessu ári.