Bankaráð Englandsbanka ákvað á fundi sínum í dag að halda stýrivöxtum óbreyttum í 5%.

Fréttavefur BBC greinir frá því að flestir greiningaraðilar hefðu gert ráð fyrir óbreyttum stýrivöxtum en talið er að aukinn verðbólguþrýstingur sé helst ástæða ákvörðunar bankans. Bankinn hefur þrisvar sinnum lækkað stýrivexti frá því í desember síðastliðnum til að hleypa lífi í hjaðnandi markaði en greiningaraðilar eru sammála um að bankinn horfi nú frekar á hækkandi verðbólgu við ákvörðun sína.

Verðbólga í Bretlandi mældist 3% í apríl en verðbólgumarkmið bankans er 2%. Jafnvel var búist við að bankinn myndi hækka stýrivexti vegna þessa en svo er þó ekki. Bankastjóri Englandsbanka, Mervyn King mun rökstyðja ákvörðun bankans síðar í dag.

Þegar verðbólgan fer yfir verðbólgumarkmið bankans ber bankastjóra Englandsbanka að rita forsætisráðherra formlegt bréf þar sem bæði er reynt að greina orsök verðbólgunnar og lagðar eru fram tillögur um hvernig bregðast skuli við.

Reuters fréttastofan greinir frá því og hefur eftir greiningaraðila úr fjármálahverfi London (The City) að bankinn muni bíða af sér verðbólguna en margir greiningaraðilar hafa spáð því að aðeins sé um verðbólguskot að ræða sem gangi hratt yfir. Það sé ástæða þess að stýrivextir eru ekki hækkaðir nú.