Stýrivextir Englandsbanka eru óbreyttir í 0,5%. Ákvörðun bankans var kynnt í morgun. Er þetta 20. mánuðurinn í röð þar sem vextir eru 0,5% en þeir hafa aldrei verið lægri.

Þá ákvað bankinn að dæla ekki meira lausafé í hagkerfið. Sú ákvörðun kemur í kjölfar nýrra hagvaxtatalna sem sýndu 0,8% hagvöxt á þriðja ársfjórðungi, nokkuð meira en búist var við.

BBC segir að áður en þær tölur lágu fyrir í síðustu viku bjuggust margir við að Englandsbanki myndi halda áfram að auka lausafé í umferð.