Vaxtaákvörðunarnefnd Englandsbanka ákvað á fundi sínum í morgun að halda stýrivöxtum landsins óbreyttum í 5%, fimmta mánuðinn í röð. Fundargerð, þar sem fram kemur hvernig atvkæði féllu að þessu sinni, verður birt eftir tvær vikur.

Aðalmarkmið Englandsbanka er að halda verðbólgu í skefjum, en verðbólgumarkmið bankans er 2%. Verðbólga í Englandi er nú 3,8%. Flest bendir til þess að hún fari yfir 4% í júlí, en tölur fyrir mánuðinn eru birtar í næstu viku. Þetta kemur fram í frétt BBC.

Vaxtaákvörðunarnefnd Englandsbanka stendur frammi fyrir því að verðbólga í landinu er meiri en æskilegt er á meðan hagvöxtur fer einnig minnkandi. Á síðasta vaxtaákvörðunarfundi, fyrir mánuði síðan, kaus meirihluti nefndarinnar að halda stýrivöxtum óbreyttum en einn meðlimur vildi hækka þá og annar vildi lækka þá.