Japansbanki hefur ákveðið að halda stýrivöxtum óbreyttum í 0,5% vegna þeirrar óvissu sem ríkir um efnahagshorfur í Japan á þessu ári, enda þótt hagvöxtur hafi mælst langt umfram væntingar á fjórða ársfjórðungi síðasta árs. Hagvöxtur mældist 3,7% á ársgrundvelli á síðustu þremur mánuðum ársins sem helmingi meiri aukning spár gerðu ráð fyrir.

Stýrivextir Japansbanka hafa haldist óbreyttir frá því að vextir voru hækkaðir um 25 punkta fyrir ári síðan. Flestir hagfræðingar og fjárfestar eiga ekki von á vaxtabreytingum á þessu ári – en sumir gera hins vegar ráð fyrir því að vextir muni jafnvel lækka síðar á árinu.

Vaxtaákvörðun Japansbanka var einróma á meðal níu stjórnarmanna bankans. Sú staðreynd kom sumum sérfræðingum á óvart; Atsushi Mizuno, einn helsti talsmaður þess að stýrivextir hækki, skipti um skoðun síðastliðinn desember og taldi að hættan á efnahagssamdrætti í japönsku efnahagslífi réttlætti óbreytta vexti.

Toshihiko Fukui, seðlabankastjóri, mun láta af embætti í næsta mánuði. Stjórnvöld gætu tilkynnt um eftirmann Fukui strax í næstu viku og er aðstoðarseðlabankastjóri Japansbanka, Toshiro Muto, talin líklegastur til að hreppa útnefninguna.