Seðlabanki Kanada hélst stýrivöxtum sínum óbreyttum í 3% á vaxtaákvörðunardegi bankans í gær, öllum að óvörum en búist var við lækkun um 0,25 prósentustig. Þá gaf bankastjórn Seðlabanka Kanada til kynna að vaxandi verðbólguþrýstingur hefði gert það að verkum að endapunktur hafi verið settur við vaxtalækkunarferil bankans. Vextir í Kanada hafa verið lækkaðir á undanförnum mánuðum úr 4,5% í 3% vegna versnandi hagvaxtarhorfna. Núna vegur hinsvegar vaxandi verðbólguþrýstingur þyngra en verðbólguhorfur hafa farið snarversnandi undanfarna mánuði vegna hækkandi olíu- og matvælaverðs. Ákvörðun Seðlabanka Kanada og sá rökstuðningur sem henni fylgdi þykir endurspegla stefnu annarra vestrænna seðlabanka sem allir standa nú frammi fyrir versnandi verðbólguhorfum á sama tíma og fyrirséð er að hægja muni á hjólum hagkerfisins. Greint var frá þessu í Morgunkorni Glitnis.