Peningastefnunefnd Seðlabanka Noregs ákvað í dag að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum við 0,5%, í samræmi við væntingar. Vextir bankans hafa haldist óbreyttir frá því í mars.

Øystein Olsen seðlabankastjóri rökstuddi vaxtaákvörðun bankans út frá því að efnahagsbatinn í Noregi væri hægari en spár höfðu gert ráð fyrir. Verðbólga hefur einnig hækkað minna en spáð var, auk þess sem hækkun húsnæðisverðs og skuldir heimilanna hafa verið yfir væntingum. Útlit væri að niðursveiflunni væri lokið að sinni.

Nefndin segir ólíklegt að stýrivöxtum bankans verði breytt í náinni framtíð. Meiri líkur séu á vaxtalækkun frekar en vaxtahækkun á næsta ári.

Þegar þetta er ritað hefur gengi norsku krónunnar styrkst um 0,7% gagnvart evru og 2,7% gagnvart dollar það sem af er degi.