Bankastjórn norska seðlabankans ákvað í dag að halda stýrivöxtum óbreyttum í 1,5%. Þeim hefur verið haldið óbreyttum á síðustu tveimur vaxtaákvörðunarfundum. Vextirnir voru lækkaðir í tvígang um samtals 0,75% í desember og mars. Þeir hafa aldrei verið lægri. Vaxtaákvörðunin var í samræmi við væntingar, að sögn Bloomberg-fréttaveitunnar.

Gengi norsku krónunnar hækkaði um 0,5% á gjaldeyrismarkaði. Það hækkaði um 0,64% gagnvart íslensku krónunni. Ein norsk króna kostar nú 21,2 íslenskar krónur.

Norski miðillinn e24.no hefur eftir seðlabankastjóranum Øystein Olsen að vextirnir muni ekki verða lágir til frambúðar og megi ekki útiloka að þeir hækki eftir fjóra mánuði. Á sama tíma eigi seðlabankinn að halda fast í verðbólgumarkmið sín.