Erlent 6. september 2012 12:57 Ritstjórn / [email protected]

Óbreyttir stýrivextir

Bankastjórn evrópska seðlabankans greindi frá því í dag að stýrivextir á evrusvæðinu haldist óbreyttir í 0,75%.
Mario Draghi, bankastjóri evrópska seðlabankans, með forvera sínum, Jean-Claude Trichet.

Bankastjórn evrópska seðlabankans hefur ákveðið að halda stýrivöxtum á evrusvæðinu óbreyttum í 0,75%. Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) hefur m.a. mælst til þess að bankinn lækkaði vexti eða gripi til annarra ráða til að lækka fjármögnunarkostnað ríkja og fyrirtækja innan myntbandalagsins.

Seðlabankinn hefur lækkað stýrivexti þrívegis síðan Mario Draghi tók við stól seðlabankastjóra af Jean-Claude Trichet í fyrra. Draghi hefur eins og aðrir bent á að fjármögnunarkostnaður hefur á sama tíma verið alltof hár og gert fyrirtækjum í löndum sem glíma við skuldavanda, svo sem á Ítalíu og Spáni, erfitt um vik enda þurfi þau að greiða meira fyrir ný lán en fyrirtæki í löndum sem standa betur.

Í umfjöllun netútgáfu bandaríska dagblaðsins The New York Times segir að nú bíði fjárfestar og fjármálasérfræðingar eftir því hvort bankastjórn evrópska seðlabankans greini frá því hvort og hvenær bankinn beiti sér fyrir því að lækka lántökukostnað, svo sem með kaupum á ríkis- og fyrirtækjaskuldabréfum.

Aðrar fréttir
Fólk
Skoðun
Eftir vinnu