Evrópski seðlabankinn tilkynnti rétt í þessu að stýrivöxtum yrði áfram haldið óbreyttum í 4%, eins og fastlega var gert ráð fyrir af fjárfestum og markaðsaðilum.

Það var samdóma álit 50 hagfræðinga sem Dow Jones-fréttaveitan leitaði til, að Evrópski seðlabankinn myndi halda vöxtum óbreyttum.

Jean-Claude Trichet, seðlabankastjóri, mun færa rök fyrir ákvörðun bankans á fjölmiðlafundi í Frankfurt síðar í dag.

Það ríkir hins vegar ekki samstaða á meðal hagfræðinga um stýrivaxtaþróunina á evrusvæðinu á þessu ári. Sumir spá því að seðlabankinn muni ráðast í stýrivaxtalækkun á þriðja ársfjórðungi, á meðan aðrir telja líklegt að ekkert verði hróflað við vaxtastiginu sökum vaxandi verðbólguþrýstings.

Verðbólga á meðal aðildarríkjanna 15 á evrusvæðinu lækkaði hins vegar í 3,3% í apríl, eftir að hún hafði mælst 3,6% í mars. Verðbólgan hafði þá aldrei mælst jafn há frá því að evran var tekin upp árið 1999.

Evrópski seðlabankinn skilgreinir verðstöðugleika – sem er hans eina lögbundna markmið – þar sem verðbólga er „undir, en í kringum 2%” til meðallangs tíma.

Ekki vilja allir útiloka að seðlabankinn grípi til stýrivaxtahækkana – fremur en að hann lækki vexti. Einn stjórnarmaður Evrópska seðlabankans, Yves Mersch, seðlabankastjóri Lúxemborg, sagði í samtali við Financial Times Deutschland í apríl mánuði að stýrivaxtahækkun væri „fullkomlega réttlætanleg”.