Seðlabanki Evrópu (ECB) tilkynnti í gær um að stýrivöxtum á evrusvæðinu yrði haldið óbreyttum í 4,0%, níunda mánuðinn í röð. Í Morgunkorni Glitnis segir að stjórn bankans hafi verið á einu máli um að halda vöxtum óbreyttum og væntingar á markaði voru einnig samhljóða. Verðbólga á evrusvæðinu var 3,2% í janúar og hefur ekki verið meiri frá upptöku evrunnar, en ECB leitast við halda verðbólgu undir, en þó sem næst, 2%.

Jean-Claude Trichet, seðlabankastjóri ECB, gaf hins vegar í skyn á fréttamannafundi eftir vaxtatilkynninguna að vaxtalækkunar væri að vænta er hann ræddi um lakar hagvaxtarhorfur. Lækkaði evran um nærri 2% gagnvart Bandaríkjadal í kjölfarið.