Seðlabanki Evrópu mun halda stýrivöxtum sínum óbreyttum í 2,5% ef marka má spár greiningaraðila varðandi vaxtaákvörðun bankans í dag. Hins vegar reikna menn með að bankinn muni hækka vexti sína í maí samkvæmt könnun á vegum Bloomberg, segir greiningardeild Glitnis.

Seðlabanki Evrópu hefur hækkað vexti í tvígang frá desember á síðasta ári. Fólgnir vextir á peningamarkaði gefa til kynna væntingar um frekari hækkun stýrivaxta á næstu mánuðum og rímar það við spár sem gera ráð fyrir 3,25% stýrivöxtum í árslok.

Hagvöxtur á Evrusvæðinu var 1,7% á síðasta ársfjórðungi 2005 og verðbólgan á svæðinu er nú 2,3%. Atvinnuleysi er 8,2% á svæðinu en það hefur minnkað nokkuð á síðustu misserum.