Evrópski seðlabankinn hélt stýrivöxtum óbreyttum við vaxtaákvörðun bankans í dag. Jean-Claude Trichet seðlabankastjóri sagði þó að bankinn gæti hækkað vexti í næsta mánuði. Stýrivextir á evrusvæðinu eru 1%.

Í frétt Bloomberg segir að Trichet gefi í skyn að vaxtahækkanir séu framundan á viðkvæmum tímum. Til að mynda hafi Írland og Grikkland átt í miklum erfiðleikum með að uppfylla skilyrði Evrópusambandsins við fjárhagsaðstoð. Segir að hættan sé sú að hærri vextir, í þeim tilgangi að sporna gegn verðbólgu, auki fjárhagslega spennu á evrusvæðinu.