*

mánudagur, 25. janúar 2021
Innlent 26. október 2020 14:24

Óbreyttir vextir hjá hinum bönkunum

Að svo stöddu hyggjast Landsbanki Íslands og Arion banka halda vöxtum óbreyttum. Íslandsbanki mun hækka vexti.

Alexander Giess
vb.is

Viðskiptablaðið sendi fyrirspurn til bæði Landsbanka Íslands og Arion banka um hvort vaxtabreytinga hjá bönkunum megi vænta á næstunni. Landsbankinn sagðist vera sífellt að meta vaxtastig á innlánsreikningum og útlánum. Meðal annars með hliðsjón af vöxtum Seðlabankans, vöxtum á markaði og öðrum fjármögnunarkjörum en ekki er greint frá vaxtaákvörðun fyrr en hún liggur fyrir. Arion banki er ekki að skoða vaxtabreytingu, að svo stöddu.

Viðskiptablaðið greindi frá því í lok síðustu viku að Íslandsbanki hygðist hækka vexti um allt að 0,35 prósentustig. Íslandsbanki segir ástæðuna megi rekja til hærri fjármögnunarkostnaðar og vísar þá til ávöxtunarkröfu á skuldabréfamarkaði sem hefur hækkað talsvert. Fastir óverðtryggðir vextir húsnæðislána til 60 mánaða hækka úr 4,05% í 4,40%.

Hjá Íslandsbanka hækka verðtryggð húsnæðislán með vaxtaendurskoðun úr 1,95% í 2,05%. Eins og er fást slík lán hjá Landsbanka Íslands með 2% vöxtum og 2,74% vöxtum hjá Arion banka.

Ávöxtunarkrafa óverðtryggðra ríkisskuldabréfaflokksins RIKB 31 0124 sem eru á gjalddaga árið 2031 er nú rúmlega 3,1%. Krafan er því eilítið hærri en hún var að jafnaði í febrúarmánuði á þessu ári þegar stýrivextir Seðlabankans voru 2,75%.

Ávöxtunarkrafa á verðtryggð skuldabréf viðskiptabankanna þriggja hefur sveiflast mikið það sem af er ári. Nú um mundir er krafan á lengstu bréfin tæplega eitt prósent hjá bönkunum þremur sem er sambærilegt og í upphafi marsmánaðar er meginvextir Seðlabankans voru 2,75%. 

Krafan á þeim bréfum náði lægstu lægðum á þessu ári í ágúst þegar hún var 0,1-0,2% og hefur hækkað skarpt síðan þá.