Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Áætlað er að hagvöxtur í fyrra hafi verið töluvert meiri en Seðlabankinn spáði í nóvember, segir meðal annars í ákvörðuninni. Þetta samrýmist vísbendingum um sterkan bata á vinnumarkaði sem áður hafi verið komnar fram. Samkvæmt spá Seðlabankans sem birtist í dag mun hagvöxtur aukast á næstu tveimur árum og slaki í þjóðarbúskapnum hverfa fyrr en áður var talið.

„Gengi krónunnar hefur hækkað á síðustu vikum þrátt fyrir umtalsverð gjaldeyriskaup Seðlabankans. Launakostnaður á framleidda einingu hækkar minna í ár en áður var spáð, að því gefnu að meginniðurstöður kjarasamninga sem gerðir voru fyrir áramót gildi fyrir vinnumarkaðinn í heild. Verðbólga á þessu ári verður því minni en áður var talið og nálægt markmiði. Verðbólguhorfur til næstu tveggja ára hafa hins vegar versnað frá nóvemberspá bankans þar sem horfur eru á að slaki í þjóðarbúskapnum snúist í spennu á tímabilinu,“ segir í ákvörðun Peningastefnunefndar.

Lækkun verðtryggða skulda hefur áhrif á efnahagshorfur
Peningastefnunefnd Seðlabankans segir að aðgerðir til þess að lækka verðtryggðar skuldir heimila muni hafa nokkur áhrif á efnahagshorfur næstu ára. Þær muni að óbreyttu auka einkaneyslu og innflutning og draga úr þjóðhagslegum sparnaði og viðskiptaafgangi, sem stuðlar að lægra gengi krónunnar en ella.

Þá segir Peningastefnunefnd að horfur á meiri vexti innlendrar eftirspurnar muni að öðru óbreyttu krefjast þess að taumhald peningastefnunnar verði hert fyrr og meir en áður hafði verið búist við. Á móti gætu komið aðrar aðgerðir sem leggjast á sveif með peningastefnunni. Þar skiptir miklu máli hvaða stefnu verður fylgt í ríkisfjármálum á komandi árum. Einnig gætu endurbætur sem styrkja framboðshlið þjóðarbúsins dregið úr framleiðsluspennu og þar með úr verðbólguáhrifum aukinnar eftirspurnar.

Að því marki sem verðbólga hjaðnar frekar mun taumhald peningastefnunnar herðast án frekari vaxtabreytinga. Samkvæmt verðbólguspá bankans munu nafnvextir hans þó að óbreyttu þurfa að hækka þegar nær dregur því að slaki snúist í spennu. Þróun nafnvaxta bankans ræðst því sem áður af framvindu verðbólgu.