Forsætisráðherra Japans, Yasuo Fukuda, hefur útnefnt Toshito Muto, aðstoðarseðlabankastjóra Japansbanka, til að taka við embætti seðlabankastjóra landsins. Ekki er þó víst hvort af því verði, en stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, sem fer með völdin í efri deild þingsins, hefur gefið til kynna að hann muni beita sér gegn skipuninni.

Toshihiko Fukui, fráfarandi seðlabankastjóri Japansbanka, tilkynnti fyrr í dag á síðasta fundi sínum að stýrivöxtum yrði haldið óbreyttum í 0,5%, en fimm ára kjörtímabili Fukui líkur þann 19. mars næstkomandi. Sérfræðingar segja að innkoma Muto, sem er 64 ára að aldri, myndi ekki hafa þýðingarmikil áhrif á peningastefnu Japans. Muto hefur ávallt fylgt Fukui að málum í stýrivaxtaákvörðunum stjórnar bankans á undanförnum fimm árum.

Hagvísar benda til þess að það sé að hægja mikið á hagvexti í japanska hagkerfinu – sumir hagfræðingar spá jafnvel yfirvofandi samdrætti – samhliða aukinni verðbólgu og ljóst þykir að ekkert verður úr stýrivaxtahækkun í bráð.

Þvert á móti er því spáð að Japansbanki verði að lækka stýrivexti á þessu ári til að stemma stigu við djúpri niðursveiflu í efnahagslífinu. Framvirkir samningar sýna að fjárfestar telja 71% líkur á því að vextir hafi lækkað í árslok – en margir telja líklegt að vextir muni lækka strax í sumar.

Lýðræðisflokkur Japans, sem ræður ríkjum í efri deild þingsins, heldur því fram að bakgrunnur Muto sem embættismaður í fjármálaráðuneytinu muni veita ríkisstjórninni ótilhlýðileg áhrif á peningastefnuna.