Englandsbanki mun að líkindum halda stýrivöxtum sínum óbreyttum í kjölfar fundar vaxtaákvörðunar-nefndar bankans í dag. Svo segir a.m.k. niðurstaða könnunar Bloomberg á spám hagfræðinga. Vextir bankans eru nú 4,75% og hafa verið hækkaðir fimm sinnum frá því í nóvember í fyrra. Í Morgunkorni Íslandsbanka kemur fram að samkvæmt könnuninni gera flestir ráð fyrir að vöxtum verði haldið óbreyttum í 4,75% í kjölfar fundarins í dag.

Engu að síður er einnig almennt spáð að vextir bankans verði komnir í 5% um áramótin. Flestir reikna því með frekari vaxtahækkun bankans þótt þeir eigi ekki von á henni í dag. Hagvöxtur hefur verið góður í Bretlandi að undanförnu, atvinnuleysi er í lágmarki og fasteignaverð hefur hækkað mikið. Verðbólga hefur enn ekki farið af stað en þrátt fyrir það hefur Englandsbanki nokkrar áhyggjur af auknum verðbólguþrýstingi í hagkerfinu og vill standa vörð um 2% verðbólgumarkmið sitt.