Í dag munu Seðlabanki Evrópu og Englandsbanki ákveða stýrivexti á vaxtaákvörðunar-fundum bankanna. Óbreyttum vöxtum er spáð hjá báðum bönkunum. Stýrivextir Seðlabanka Evrópu eru 2% sem stendur og hafa verið óbreyttir frá því þeir náðu lágmarki í júní í fyrra. Stýrivextir Englandsbanka standa hins vegar í 4,75% og hafa verið hækkaðir fimm sinnum frá því þeir stóðu lægst í 3,5% fyrir ári síðan.

Í Morgunkorni Íslandsbanka er bent á að hagvöxtur hefur verið góður í Bretlandi síðustu misseri, atvinnuleysi lítið og húsnæðisverð hefur hækkað töluvert. Englandsbanki hefur haft áhyggjur af verðbólguþrýstingi af þessum sökum og hefur bankinn því hækkað vexti sína. Ekki er reiknað með vaxtahækkun að þessu sinni og er talið að vextir séu komnir nálægt sínu hæsta gildi miðað við núverandi aðstæður. Vísbendingar eru um að tekið sé að hægja á hækkun húsnæðisverðs og því er talin minni þörf á vaxtahækkun.

"Hagvöxtur á evrusvæðinu hefur verið óverulegur en virðist aukast. Atvinnuleysi hefur hins vegar aukist lítillega og efnahagsbatinn á svæðinu hefur almennt reynst hægur. Seðlabanki Evrópu hefur beðið með hækkun vaxta sinna af þessum sökum og almennt er reiknað með að hann bíði enn um sinn - jafnvel fram á næsta ár - þegar aukið líf er hlaupið í efnahag evrusvæðisins," segir í Morgunkorninu.