Hagnaður Opinna kerfa, eftir skatta, á fyrsta ársfjórðungi nam 57 milljónum króna og er það sama afkoma og á sama tíma á liðnu ári.

Í tilkynningu frá Opnum Kerfum Group segir: "Heildarvelta Opin Kerfi Group á fyrsta ársfjórðungi 2005 var 2.674 milljónir króna, samanborið við 3.076 milljónir árið áður, þegar Skýrr og Teymi eru ekki talin með. 68% tekna samstæðunnar eiga nú uppruna sinn í erlendri starfsemi hennar. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 109 milljónir króna, samanborið við 64 milljónir króna árið áður, án Skýrr og Teymis, og er þetta aukning um 71%. EBITDA sem hlutfall af veltu nærri tvöfaldast, eykst úr 2,1% í 4,1% á milli ára. Hagnaður samstæðunnar eftir skatta á fyrsta ársfjórðungi 2005 var 57 milljónir króna, sem er nánast sama útkoma og í fyrsta ársfjórðungi 2004 þegar Skýrr og Teymi voru með, en tap var á fjórðungnum í fyrra án þeirra félaga.

Eiginfjárhlutfall félagsins er nú rúmlega 31% og breytist óverulega frá fyrra ári, en arðsemi eigin fjár á ársgrundvelli eftir fyrsta ársfjórðung vex verulega og er yfir 16%. Veltufé frá rekstri á fyrsta ársfjórðungi 2005 var 69 milljónir króna. Fjöldi starfsmanna hjá samstæðunni er nú 425.

Alþjóðlegir reikningsskilastaðlar

Áhrif af innleiðingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla, IFRS, á reikningsskil Opin Kerfi Group hf. eru óveruleg og beinast einkum að framsetningu rekstrarreiknings, efnahagsreiknings og sjóðstreymis, auk þess sem skýringar eru ítarlegri. Niðurstaða rekstrarreiknings breytist ekkert en eigið fé lækkar um 6,5 milljónir króna. Í árshlutareikningi félagsins er nákvæm umfjöllun um áhrif nýju staðlanna, einkum í skýringu 17.

Af dótturfélögunum

Opin Kerfi Group hf. samanstendur af móðurfélaginu, tveimur eignarhaldsfélögum og þremur rekstrarfélögum sem eru; Opin kerfi ehf., Kerfi AB í Svíþjóð og Kerfi A/S í Danmörku. Opin kerfi ehf. Rekstrarumhverfi Opinna kerfa ehf. hefur verið hagstætt á árinu. HP er mjög samkeppnisfært á markaðinum og eftirspurn á HP vörum góð. Einnig gengur Cisco, Microsoft og Alcatel reksturinn vel. Fyrsti ársfjórðungurinn skilar rekstrarniðurstöðu vel umfram áætlanir. Velta var 856 milljónir króna sem er 9% yfir veltu sama tímabils í fyrra. EBITDA hagnaður er nú 62 milljónir króna sem er 36% aukning miðað við sama tíma í fyrra. Hagnaður eftir skatta er nú 48 milljónir en var 36 milljónir á sama tímabili 2004. Horfur á öðrum ársfjórðungi eru góðar og líkur á að rekstur ársins verði umfram áætlanir.

Forstjóri Opinna kerfa ehf. er Agnar Már Jónsson.

Kerfi AB

Velta Kerfi AB í Svíþjóð á fyrsta ársfjórðungi var 1.602 milljónir króna sem er töluvert undir veltu sama tímabils í fyrra. Samdrátturinn er vegna minni vörusölu, en það sama virðist eiga við um flesta keppinauta Kerfi AB á fyrsta fjórðungi. Á móti kemur að hluta að framlegðarhlutfall hefur aukist milli ára og rekstrarhagnaður (EBITDA) er 49 milljónir króna í ársfjórðungnum en var 36 milljónir króna á sama árshluta í fyrra. Fyrri hluti ársins 2004 markaðist nokkuð af sameiningarkostnaði og ófyrirséðum einskiptiskostnaði en nú er sameiningu að fullu lokið og rekstrarkostnaður er undir áætlun.

Hagnaður eftir skatta er tæpar 24 milljónir króna en var um 8 milljónir fyrir sama tímabil 2004. Niðurstaðan nú er samt undir áætlun fyrir fjórðunginn en forráðamenn félagsins telja að rekstrarhagnaður verði vaxandi fram eftir ári. Forstjóri Kerfi AB er Anders Grönlund.

Kerfi A/S

Velta Kerfi A/S í Danmörku var 216 milljónir króna á fyrsta fjórðungi 2005 en var 287 milljónir króna árið áður. Rekstrarhagnaður (EBITDA) var 11 milljónir króna en um 5 milljónir króna árið áður. Hagnaður eftir skatta nú var 5 milljónir króna sem er tæp fjórföldun miðað við sama tímabil í fyrra. Horfur eru góðar í Danmörku og gera stjórnendur félagsins ráð fyrir vexti bæði í veltu og afkomu. Forstjóri Kerfi A/S er Carsten Egeberg.

Opin kerfi eignarhaldsfélag ehf.

Á árinu sem leið var stefnu samstæðunnar framfylgt í þá veru að fækka minnihlutaeignum í félögum, en eiga dótturfélögin að fullu. Eignasafn Opin Kerfi Group hf. utan dótturfélaganna var bókfært í árslok 2003 á um 380 milljónir króna en var komið niður í um 150 milljónir króna um síðustu áramót, þar af voru um 130 milljónir króna hjá Skýrr hf. Áfram hefur verið unnið á sömu braut og núverandi eignir í öðrum félögum en dótturfélögunum eru bókfærðar á innan við 15 milljónir króna.

Ársfjórðungsreikninginn í heild sinni, með nánari skýringum og sundurliðunum má finna á vefnum www.okg.is. Aftur skal tekið fram að samanburðartölur frá fyrri tímabilum í reikningnum innihalda tölur vegna Skýrr og Teymis sem ekki eru hluti af OKG frá og með 2005."