Ástæða þess að Kópavogsbær hefur ekki efnt samning við Þorstein Hjaltested um afhendingu 300 tilbúinna lóða á afmörkuðum skikum á Vatnsendalandi eru þær að vatnsvernd hefur ekki fengist aflétt af svæðinu. Lögfræðingar Kópavogsbæjar segja að ekki verði unnt að hefjast handa við skipulag og framkvæmdir á svæðinu. Þorsteinn telur hins vegar að bærinn hafi vitað strax á árinu 2006 að verndun svæðisins yrði ekki breytt. Hvorki hann né lögfræðingur hans hafi verið upplýstir um það þegar Þorsteinn og Kópavogsbær sömdu um svokallaða „eignarnámssátt“ vegna eignarnáms bæjarfélagsins á Vatnsenda árið 2007.

Þetta kemur fram í greinargerðum málsins sem Þorsteinn Hjaltested hefur höfðað gegn Kópavogsbæ. Þorsteinn samdi við Kópavogsbæ í janúar 2007 um að fá greiddar 2.250 milljónir króna vegna eignarnáms bæjarfélagsins á 864 hektara landsvæði. Hann hefur fengið upphæðina greidda.

Til viðbótar var samið um að Þorsteinn fengi 300 tilbúnar lóðir undir sérbýli á afmörkuðum reitum á Vatnsendalandi. Þá fengi hann einnig 11% alls byggingarréttar í hverjum skipulagsáfanga fyrir sig.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.