Íslenska augnlyfjaþróunarfélagið Oculis hefur lokið við um 15 milljón dollara, um 2,1 milljarða króna, viðbótar fjármögnun frá innlendum og erlendum fjárfestum í aðdraganda skráningar félagsins á markað.

Fjármagnið bætist við 11,5 milljarða fjármögnun sem félagið tilkynnti um í október. Til stendur að skrá Oculis í Nasdaq kauphöllina í Bandaríkjunum í gegnum samruna við sérhæfða yfirtökufélagið (e. SPAC) European Biotech Acquisition Corp (EBAC) sem leggur þar að auki til allt að 127,5 milljónir dollara.

Fyrir samrunann geta hluthafar EBAC óskað eftir því að hlutafé sitt verði innkallað og greitt út í reiðufé. Eigendur um 7 milljóna dollara hlutafjár í EBAC hafa gefið út að þeir muni ekki innkalla fé sitt.

Oculis var stofnað fyrir tuttugu árum af Einari Stefánssyni, prófessor í augnlækningum, og Þorsteini Loftssyni, prófessor í lyfjafræði.

Það lyf sem lengst er komið í þróun hjá Oculis, OCS-01, byggir á einkaleyfavarinni tækni, sem gerir mögulegt að meðhöndla sjúkdóma í afturhluta augans með augndropum. OCS-01 er í dag í alþjóðlegum fasa 3 klínískum prófunum til meðhöndlunar á sjónhimnubjúg í sykursýki og gæti orðið fyrsta lyfið í formi augndropa til meðhöndlunar á sjúkdóm í afturhluta augans.

Meðal kjölfestufjárfesta í fjármögnuninni sem kynnt var í október eru LSP 7, einn stærsti líftæknisjóður Evrópu, Earlybird, Novartis Venture Fund, Pivotal bioVenture Partners, Tekla Capital Management LLC og VI Partners, meðal annarra.

Fyrsta vísisfjármögnun Oculis fór fram árið 2016 og var leidd af Brunni vaxtarsjóði og Silfurbergi. Í árslok 2017 urðu vatnaskil í starfsemi Oculis þegar þrír erlendir vísisjóðir komu að félaginu. Í kjölfar þess var sett upp móðurfélag og höfuðstöðvar í Sviss. Frekari vísifjármagnanir hafa fylgt og hefur Oculis til dagsins í dag samtals sótt um 110 milljónir dala, eða um 16 milljarða króna, í fjármagn til rannsóknar og þróunar nýrra augnlyfja.

Fréttin birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, sem kom út 2. febrúar.