Augnlyfjaþróunarfyrirtækið Oculis tilkynnti í morgun um verðlagningu og fjölda hluta sem gefnir verða út í hlutafjáraukningu félagsins. Félagið, sem var stofnað af Einari Stefánssyni og Þorsteini Loftssyni árið 2003, mun alls sækja um 40,25 milljónir dala eða sem nemur 5,6 milljörðum króna í nýtt hlutafé.

Oculis mun gefa út 3,5 milljónir nýja hluti en félagið hafði áður gefið út að hlutafé yrði aukið um allt að 5 milljónir að nafnverði. Verð á hlut í útboðinu er 11,5 dalir sem samsvarar dagslokagengi Oculis í kauphöll Nasdaq í New York í gær.

Þátttakendur í útboðinu fá einnig 30 daga rétt til að kaupa 15% hlut til viðbótar við úthlutun á sömu kjörum og því gæti andvirði hlutafjárútboðsins farið upp í 46,3 milljónir dala eða sem nemur tæplega 6,5 milljörðum króna.

Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um skráningu Oculis og þátttöku íslenskra fjárfesta í hlutafjárútboði félagsins í aðdraganda skráningarinnar. Oculis safnaði yfir 14 milljörðum króna í nýtt hlutafé samhliða skráningunni.