*

sunnudagur, 13. júní 2021
Innlent 19. maí 2018 17:32

Oculis, Syndis og Kerecis fá verðlaun

Þrjú íslensk fyrirtæki fá viðurkenningu Verðlaunasjóðs iðnaðarins fyrir frumkvöðlastarf í iðnaði og milljón krónur.

Ritstjórn
Friðrik Steinn Kristjánsson, Valdimar Óskarsson, Steindór Guðmundsson, Theodór Gíslason, Guðni Th. Jóhannesson, Sigurður Hannesson, Þorsteinn Loftsson, Guðrún Hafsteinsdóttir, Einar Stefánsson, Guðmundur Magnús Hermannsson og Baldur Tumi Baldursson.
Haraldur Guðjónsson

Fyrirtækin Oculis, Syndis og Kerecis hafa hlotið viðurkenningar Verðlaunasjóðs iðnaðarins fyrir frumkvöðlastarf á sviði iðnaðar.

Það var forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, sem afhenti forsvarsmönnum fyrirtækjanna þriggja viðurkenningarnar en fyrirtækin fengu 1 milljón króna  ásamt sérstökum verðlaunagrip og verðlaunaskjali.

Afhending viðurkenninganna fór fram í gær í listagalleríinu Berg Contemporary á Klapparstíg 16.

Oculis gegn augnsjúkdómum

Augnlyfjaþróunarfyrirtækið Oculis ehf. hefur þróað byltingarkennda tækni til meðhöndlunar á augnsjúkdómum segir í fréttatilkynningu um verðlaunahafann.

Um er að ræða nýja íslenska uppfinningu þar sem lyfjafræði og læknisfræði koma saman. Starssemi Oculis byggir á einkaleyfavarinni tækni, sem gerir mögulegt að meðhöndla sjúkdóma í afturhluta augans með augndropum.

Sjúkdómar í afturhluta augans eru í dag meðhöndlaðir með augnástungum og tækni Oculis felur því í sér byltingu fyrir þær tugmilljónir sjúklinga sem þjást af sjónhimnusjúkdómum.

Þróunin á lyfinu nálgast lokastig og góðar líkur eru á að lyfið fari á markað. Oculis ehf. á rætur að rekja til Háskóla Íslands og Landspítala, en félagið var stofnað af dr. Þorsteini Loftssyni, prófessor í lyfjafræði og dr. Einari Stefánssyni, prófessor í augnlækningum.

Öll rannsóknar- og þróunarstarfsemi Oculis er á Íslandi og félagið vinnur nú að því að efla starfsemina, meðal annars með nýrri rannsóknaraðstöðu í Glæsibæ og fjölgun starfsmanna. Höfuðstöðvar fyrirtækisins voru nýlega fluttar til Sviss og ráðnir voru tveir reynslumiklir stjórnendur úr lyfjaiðnaðinum til að styðja framgang félagsins.

Syndis gegn netþrjótum

Syndis er fyrirtæki í net- og upplýsingaöryggi og framkvæmir m.a. öryggisúttektir, innbrotsprófanir, greiningar á óværum, sinnir viðbragðsþjónustu vegna tölvuinnbrota, og ráðgjöf í upplýsingaöryggi fyrir mörg af stærstu fyrirtækjum Íslands á sviði fjármála, stofnana, og önnur tækni fyrirtæki.

Að auki hefur Syndis framkvæmt öryggisúttektir fyrir stór erlend fyrirtæki. Syndis hefur verið leiðtogi á íslenskum markaði í tæknilegum tölvuöryggismálefnum undanfarin ár og sinnir aðkallandi þörf á að bæta öryggismál fyrirtækja á Íslandi og erlendis segir í fréttatilkynningunni.

Syndis hefur þróað nýjan hugbúnað, Adversary, sem er vettvangur fyrir skalanlega upplýsingaöryggisþjálfun. Adversary er ný þróun og nálgun við þjálfun starfsmanna í upplýsingaöryggismálum fyrirtækja og hefur fengið frábær viðbrögð í prófunum og hjá fyrstu notendum og viðskiptavinum segir þar jafnframt.

Kerecis gegn sárum með þorskroði

Lækningavörufyrirtækið Kerecis hefur þróað byltingakennda vöru til meðhöndlunar á sárum og vefjaskaða. Vara Kerecis er Omega3-ríkt þorskroð sem fellur til við roðflettingu á þorskflökum.

Kerecis stuðlar því einnig að fullnýtingu á sjávarafurðum sem er mikilvægt fyrir íslenskan sjávarútveg. Við notkun er roðbúturinn lagður í vefjaskaða á líkamanum eða sár og vaxa þá heilbrigðar frumur líkamans inn í efnið.

Frumurnar hefja þar uppbyggingu á nýjum líkamsvef á meðan sáraroðið brotnar hægt niður. Til að mynda hentar vara Kerecis vel til meðhöndlunar á sykursýkissárum og minnkar líkurnar á aflimunum vegna sára.

Meira en þrjúhundrað sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir kaupa vörur félagsins reglulega. Fyrirtækið á einnig í samstarfi við Bandarísk varnarmálayfirvöld þar sem verið er að þróa sérstaka útgáfu af sáraroðinu sem hentar til meðhöndlunar á áverkasárum á vígvelli.

Kerecis rekur þrjár starfsstöðvar: framleiðslu á Ísafirði, læknisfræðilegar rannsóknir í Reykjavík ásamt skrifstofu á Washington D.C. svæðinu í Bandaríkjunum þaðan sem sölu- og markaðsstarfi er stýrt.

Sjóðurinn stofnaður 1976

Verðlaunasjóður iðnaðarins var stofnaður 1976 af Kristjáni Friðrikssyni og eiginkonu hans Oddnýju Ólafsdóttur. Tilefnið var m.a. að þá voru liðin 35 frá stofnun Klæðagerðarinnar Últímu en einnig það að Kristján hafði óbilandi trú á íslenskum iðnaði og íslenskri hönnun.

Honum fannst aldrei nógsamlega vakin athygli á hinum fjölmörgu íslensku uppfinningarmönnum segir í tilkynningunni. Stofnfé Verðlaunasjóðs iðnaðarins var húseign sem Últíma gaf og skyldi ágóðinn af eigninni verða verðlaunafé.

Verðlaunasjóður iðnaðarins hefur verið starfræktur í anda stofnenda hans í samstarfi við Samtök iðnaðarins og hefur með vissu millibili veitt viðurkenningar, oftast fyrir frumkvöðlastarf á sviði iðnaðar. Samkvæmt upphaflegri stofnskrá sjóðsins er tilgangur hans að örva til dáða á sviði iðnaðar og jafnframt vekja athygli á þeim afrekum sem unnin hafa verið og unnin verða á því sviði.

Hjól sem tákn um upptötvun

Verðlaunagripurinn sem heitir „hjólið“ en hjól er oft notað sem tákn fyrir uppgötvun, framfarir og virkni, er verðlaunahönnun Péturs Baldvinssonar úr samkeppni sem haldin var meðal nemenda í Myndlista- og handíðaskóla Íslands veturinn 1998.

Gripurinn er líka táknrænn fyrir hjól atvinnulífsins, hreyfingu - andstöðu við kyrrstöðu. Þess vegna er ætlast til að hjólið leiki frjálst á stalli sínum sem er grágrýtisteningur sóttur í íslenska náttúru. Hjólið sjálft er smíðað úr einu helsta iðnaðarhráefni Íslendinga, áli, sem er rafbrynjað þannig að yfirborð þess nær hörku og slitþoli eðalmálma.

Sjóðsstjórnina skipa:

  • Friðrik Steinn Kristjánsson, fulltrúi fjölskyldu Kristjáns
  • Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins
  • Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.

Við val á verðlaunahafa hafði sjóðstjórn einkum eftirfarandi í huga sem gefur til kynna hvað fyrir stofnendum vakti með sjóðnum:

  1. Uppfinningar sem líklegar teljast til að koma íslenskum iðnaði að gagni.
  2. Einstaklinga og fyrirtæki fyrir happadrjúga forystu í uppbyggingu iðnaðar hvort sem er til innanlandsnota, sölu erlendis eða fyrir forystu á sviði iðnaðarmála almennt.
  3. Verðlaunin má einnig veita fyrir sérlega vel gerða iðnaðarframleiðslu sem fram kemur t.d. á iðnsýningum eða kaupstefnum.
  4. Þá má einnig veita verðlaun fyrir hönnun sem hefur tekist sérlega vel að dómi sjóðsstjórnar.