*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 2. nóvember 2011 15:20

Óðaverðbólga í skákheimum

Stórmeistarar í skákheiminum eru orðnir um 1400 talsins og kæmust í 30. sæti yfir fjölmennustu sveitarfélög á Íslandi.

Ritstjórn
Setið í svitabaði við taflborðið.

Sú var tíð að helsta takmark allra „alvöru“ skákmanna var að öðlast stórmeistaratign. Þá þekktu skákáhugamenn flesta stórmeistara með nafni og vissu á þeim deili – þetta var meðan Íslendingar áttu fleiri stórmeistara en öll önnur Norðurlönd samanlagt.

Nú er öldin önnur: Stórmeistarar í heiminum eru orðnir um 1400 talsins, og kæmust þannig í 30. sæti yfir fjölmennustu sveitarfélög á Íslandi. Eitt sinn var líka markmið allra stórmeistara að komast yfir 2600 skákstig, en þá öðluðust þeir hina óformlegu nafnbót „ofurstórmeistarans“.

En nú eru ofurstórmeistarar farnir að skipta hundruðum í heiminum: Jóhann Hjartarson sem er stigahæstur Íslendinga (með 2582 stig) er númer 301 á stigalista FIDE.

Óðaverðbólga í skákstigum hefur valdið því að núna er það bara númerið á heimslistanum sem skiptir máli. Lítum til gamans á stöðuna á toppnum.

  1.  Magnus Carlsen (Noregi) 2823 stig. 
  2.  Vishy Anand (Indlandi) 2817 stig. 
  3.  Levon Aronian (Armeníu) 2807 stig.
  4.  Vladimir Kramnik (Rússlandi) 2791 stig.
  5.  Sergey Karjakin (Rússlandi) 2772 stig.
  6.  Veselin Topalov (Búlgaríu) 2768 stig.
  7. Vassily Ivanchuk (Úkraínu) 2765 stig. 
  8. Ruslan Ponomariov (Úkraínu) 2758 stig. 
  9. Alexander Grischuk (Rússlandi) 2757 stig. 
  10. Gata Kamsky (Bandaríkjunum) 2756 stig. 

Boris Gelfand, sem á næsta ári mun tefla við Anand um heimsmeistaratitilinn, er „aðeins“ í 15. sæti með 2746 stig og Judith Polgar, besta skákkona allra tíma, verður að gera sér 48. sæti að góðu – þó hún skarti 2701 skákstigi. Já, það er semsagt hálft hundrað skákmanna komið með meira en 2700 stig. Verðbólgan er víða!

Stikkorð: skák Taflmenn