Hagnaður Odda hf. á Patreksfirði var 10,9 millj. kr, en var árið á undan um 18,4 millj.kr. Þetta er sjötta árið í röð sem hagnaður er á rekstri félagsins. Ársreikningur félagsins fyrir síðasta starfsár sýndi að reksturinn á síðasta ári var félaginu hagstæður. Samanlagðar rekstrartekjur fiskvinnslu og útgerðar voru 25% lægri en árið á undan og námu tæpum 800 milljónum króna.

Minnkandi hagnað og minni tekjur má rekja til nokkurra þátta í rekstrinum s.s. minna hráefnismagns og lægra afurðaverðs, en þar kemur til bæði lækkun á afurðamörkuðum og styrking íslensku krónunnar. Þá lækkuðu tekjur í útgerð og vinnslu vegna sölu á öðru skipi félagsins mb. Garðari BA, en veiðiheimildir voru fluttar á annað skip félagsins vs. Núp BA. Afkoma á rekstri fyrir afksriftir og fjármagnsliði var þó ívið betri í ár en í fyrra.

Hin jákvæða afkoma síðastliðinna ára hefur gert það að verkum að eiginfjárstaða félagsins er nú um 341 millj. kr. og eiginfjárhlutfallið 42% Þá er lausafjárstaðan viðunandi og er veltufjárhlutfallið 1,10.

Aðalfundur ákvað að greiða 7% arð til hluthafa.

Félagið stóð fyrir stofnun á fiskeldisfélaginu Þóroddi ehf. ásamt Þórsbergi ehf. í Tálknafirði og hefur nýja félagið tekið við öllum eignum og rekstri félaganna á þessu sviði. Miklar vonir eru bundnar við þorskeldistilraunir sem staðið hafa yfir í um 6 ár á Tálknafirði og 3 ár á Patreksfirði.

Framkvæmdastjóri Odda hf. er Sigurður Viggósson og stjórnarformaður Einar Kristinn Jónsson, rekstrarhagfræðingur. Aðrir lykilstjórnendur eru Halldór Leifson útgerðarstjóri, Skjöldur Pálmason framleiðslustjóri, Smári Gestsson yfirvélstjóri og Jón Bessi Árnason skipstjóri.