Prentsmiðjan Oddi hefur gengið frá kaupum á Infopress, stærstu prentsmiðju Rúmeníu. Þorgeir Baldursson, forstjóri Prentsmiðjunnar Odda, staðfesti þetta í samtali við Viðskiptablaðið í gær en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið enda ætti eftir að greina starfsfólki frá kaupunum. Þorgeir sagði að þeir hefðu undanfarið verið að skoða tækifæri víðar í Austur-Evrópu en nú þegar reka þeir prentsmiðju í Póllandi með 25 starfsmönnum. Einnig er Oddi með starfsemi í Bandaríkjunum.

Í fréttaskeyti Dow Jones, sem byggist á frétt viðskiptadagblaðsins Ziarul, segir að Oddi hafi keypt Infopress af fjárfestingasjóðnum Baring Centra Europe Fund (BCEF). Ekkert kemur þó fram um kaupverðið. Baring fjárfestingasjóðurinn á 80% hlut í prentsmiðjunni á móti tveim stjórnendum, sem stofnuðu fyrirtækið.

Velta Infopress jókst um 30% á milli ára og nam 35 milljónum evra árið 2005 eða um 2,6 milljörðum króna. Starfsmenn eru um 300 samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Í fréttinni kemur fram að með kaupunum verður Oddi stærsti rekstraraðili á rúmenskum prentmarkaði. Fyrir eru tvær aðrar nokkuð stórar prentsmiðjur, Coprint og Megapress, en að öðru leyti er markaðurinn tiltölulega dreifður. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur engin íslensk fjármálastofnun komið að yfirtökunni að svo komnu máli.