Ákveðið hefur verið að loka prentsmiðju Odda í Maryland í Bandaríkjunum.

Samkvæmt frétt í netútgáfu The Daly Times í Princess Anne í Maryland, þar sem prentsmiðja Odda er staðsett, kom það starfsmönnum og viðskiptavinum í opna skjöldu þegar greint var frá því að félagið hyggðist loka verksmiðju sinni sem komst í eigu Odda fyrir þremur árum síðan.

Hjá fyrirtækinu starfa um 50 manns.

Það var árið 2006 sem Oddi sameinaðist Atlantic & Hastings Printers LLC og hóf prentsmiðjurekstur í Maryland undir nafninu Oddi Atlantic plant.

Félagið hefur einkum komið að umbúðaprentun fyrir matvælaiðnaðinn.

Í fréttinni kemur fram að prentsmiðjan skuldar þróunarsjóði Maryland (Maryland Department of Business and Economic Development) 2,2 milljónir Bandaríkjadala eða 250 milljónir króna miðað við gengið þessa stundina.

Í viðtölum við starfsmenn kemur fram að fyrirhuguð lokun kemur þeim mjög á óvart.