Starfsemi Odda USA inc., dótturfyrirtækis fjárfestingafélagsins Kvosar ehf., hefur verið sameinuð starfsemi bandaríska prentfyrirtækisins Atlantic & Hastings Printers. Kvos á 70% í sameinuðu félagi og eigendur bandaríska félagsins eiga 30%. Vegna sameiningarinnar mun Kvos leggja hinu sameinaða félagi til aukið hlutafé. Sameinað félag mun bera nafnið Oddi Atlantic Hastings LLC.

Að sögn Þorgeirs Baldurssonar, forstjóra Kvosar, mun þessi sameining flýta uppbyggingu fyrirtækisins í Bandaríkjunum um leið og það gerir Odda fært að tengja sölustarfsemi sína þar þessu nýja fyrirtæki. Þorgeir sagði að þeir hefðu stundað sölustarfsemi í Bandaríkjunum á bókum og vandaðra prentverki sem framleitt hefði verið á Íslandi. Því hyggist þeir halda áfram í gegnum þetta nýja fyrirtæki.

Oddi USA inc. var stofnað árið 2005, en það er framleiðslu- og sölufyrirtæki á öskjum, staðsett í Princess Anne í Maryland fylki í Bandaríkjunum. Tilgangur stofnunar Odda USA var að færa framleiðsluna nær bandarískum viðskiptavinum Kassagerðarinnar, en Kassagerðin hefur þjónað bandarískum fyrirtækjum um árabil, bæði í fiskvinnslu og matvælaframleiðslu. Sagðist Þorgeir sjá mikla möguleika í að efla umbúðaframleiðslu með sameiningunni en bandaríska fyrirtækið hefur fyrst og fremst verið í almennu prentverki til þessa.

Fyrirhugað er að sameinað fyrirtæki flytji allt saman í húsnæði Odda USA og sagðist Þorgeir gera ráð fyrir að það tæki um það bil tvö ár að sameina félögin en gert er ráð fyrir að stækka núverandi húsnæði til þess að það gangi eftir. Fyrirtækinu verður stýrt af bandarískum stjórnendum þess en forstjóri sameinaðs félags verður Brian T. Twilley, núverandi forstjóra Atlantic Hastings. Hann mun einnig setjast í þriggja manna stjórn ásamt þeim Bjarna Lúðvíkssyni, framkvæmdastjóra Kassagerðarinnar hf. og Páli Gíslasyni, framkvæmdastjóra þróunarsviðs og erlendrar starfsemi Kvosar. Bjarni verður stjórnarformaður.

Að sögn Þorgeirs sjá þeir mikla möguleika með sameiningunni, bæði í almennu prentverki og umbúðum. "Við erum búnir að vera viðloðandi þennan markað í meira en 10 ár en fyrst og fremst með sölustarfsemi og framleiðslu hér heima. Með þessu erum að styrkja okkar starfsemi þarna verulega."

Gert er ráð fyrir að um 70 manns starfi hjá sameinuðu félagi. Atlantic & Hastings Printers varð til við sameiningu Hastings Brothers sem stofnað var 1920 og Atlantic sem stofnað var 1973.