Fjármálaráðuneytið er eins og flestum er kunnugt ráðuneyti skattamála og það er því áhugavert að heyra sjónarmið Oddnýjar G. Harðardóttur, fjármálaráðherra, í skattamálum. Það er óhætt að segja að það hafi komið fáum á óvart þegar skattar voru ítrekað hækkaðir og nýir skattar búnir til í tíð Steingríms J. Sigfússonar í fjármálaráðuneytinu, enda í takt við stefnu og fyrri ummæli Vinstri grænna um skattakerfið.

„Steingrímur J. hefði aldrei farið með þessar hækkanir í gegn nema af því að stjórnarflokkarnir samþykktu það,“ segir Oddný aðspurð um störf forvera hennar í fjármálaráðuneytinu.

„Við skulum líka hafa í huga að skattar lækkuðu mikið fyrir hrun. Það var augljóst við þetta mikla efnahagshrun sem varð hér að það varð að hækka skatta til að stoppa upp í gatið. Ég var hlynnt því að fara blandaða leið skattahækkana og niðurskurðar. Hagtölur sýna að það var rétt að fara þá leið.“

Aðspurð um tekjuskattinn segist Oddný ekki vilja breyta honum í fyrra horf heldur hafa hann áfram þrepaskiptan eins og nú er. Það sé í anda jafnaðarmennskunnar. Þá segist hún ekki vilja hækka fyrirtækjaskatt frekar en nú hefur verið gert.

„Það væri nær að endurskoða virðisaukaskattskerfið,“ segir Oddný.

„Ég myndi vilja skoða það að lækka efra þrepið þegar fram í sækir. Mér líst betur á það að vera bara með eitt þrep, þannig að við getum lækkað það sem nú er í efra þrepi og endurskoðað það sem er á undanþágunni. Við þurfum að endurskoða þetta reglulega. Allir borga virðisaukaskatt en við stýrum síðan ráðstöfunartekjunum og jöfnuði í gegnum tekjuskattinn. Ég er ánægð með þessi þrjú tekjuskattsþrep. Það eru hins vegar ákveðin vandamál með auðlegðarskattinn. Hann er þó tímabundinn og ég mun leggja áherslu á að endurnýja hann ekki.“

Oddný G. Harðardóttir var skipuð fjármálaráðherra um síðustu áramót í einum af mörgum ráðherrahrókeringum ríkisstjórnarinnar. Mikið hefur mætt á Oddnýju að undanförnu enda von á fjárlagafrumvarpi næsta árs á næstu vikum. Í viðtali við Viðskiptablaðið fer Oddný yfir helstu línur í fjárlögunum, halla af rekstri ríkissjóðs síðustu ár, skoðun sína á skattamálum og sölu á ríkiseignum, umdeilda skattahækkun á hótel og gistiþjónustu sem verið hefur í umræðunni og loks stöðu Samfylkingarinnar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.