Oddný G. Harðardóttir fjármálaráðherra ætlar að skipa sérfræðihóp sem skoða mun hvaða skorður skuli setja lífeyrissjóðunum, svo sem um fjárfestingar þeirra, endurskoðun viðurlagaákvæða og horfa til þess að móta ný viðmið fyrir þá sem halda utan um sjóðina. Róbert Spanó, forseti lagadeildar Háskóla Íslands, er hópnum til ráðgjafar.

Þetta kom fram í skýrslu fjármálaráðherra á Alþingi í dag um stöðu lífeyrissjóðanna.

Í skýrslunni fór ráðherra yfir skýrslu úttektarnefndar lífeyrissjóðanna og helstu athugasemdir sem þar eru settar fram. Oddný benti á að nú þegar hafi verið gerðar nokkrar breytingar á lögum um lífeyrissjóði og hafi verið komið ti móts við athugasemdir nefndarinnar að nokkru leyti. Á hinn bóginn mælti hún fyrir því að lífeyrissjóðirnir setji á laggirnar eftirlitskerfi.