Ágúst Ólafur Ágústsson, oddviti Samfylkingarinnar í kjördæminu Reykjavík Suður, sem er einn af sjö stærstu hluthöfum fjölmiðilsins Kjarnans, segist hafa sagt sig úr stjórn fjölmiðilsins þegar hann ákvað að fara í framboð.

„Ég hef ekki leitt hugann að því,“ segir Ágúst Ólafur í Fréttablaðinu aðspurður hvort hann muni selja hlut sinn í náinni framtíð en góðar líkur eru á að fylgi flokksins dugi til að fleyta Ágústi á þing og flokknum í lykilstöðu við stjórnarmyndun.

Smári McCarthy þingmaður Pírata og oddviti flokksins í Suðurkjördæmi hefur reynt að selja 1,6% hlut sinn í fjölmiðlinum Stundinni um langa hríð. Hefur hann sagt að það sé óeðlilegt að þingmenn séu í eigendahóp fjölmiðla sem eigi að veita þeim aðhald.„Ég get alveg skilið það sjónarmið,“ segir Ágúst Ólafur „Það getur fullkomlega komið til greina [að selja] en þarf bara að koma í ljós.“