Samtök iðnaðarins óttast að verktakar sem vinna fyrir Reykjavíkurborg reyni að segja sig frá verkefnum í kjölfar þess að borgarráð hafnaði fyrir helgi beiðni um að verksamningar til lengri tíma en þriggja mánaða verði verðtryggðir. Þýði þetta í raun að forsendur verksamninga séu brostnar og í mörgum tilfellum sé hagkvæmara að greiða sekt en klára verkið. Lýsa samtökin yfir miklum vonbrigðum með synjun borgarráðs.

Óttast afleiðingar synjunarinnar

Á heimasíðu samtakanna segir framkvæmdastjóri þeirra, Jón Steindór Valdimarsson, að hann óttist afleiðingar synjunarinnar og ósanngjarnt sé að verktaki beri einn ábyrgð á ófyrirséðum verðhækkunum vegna gengissveiflna og hækkunar á heimsmarkaðsverði hráefnis. Ætla samtökin að óska eftir viðræðum við borgina og rökstyðja sjónarmið sín betur.