Ódýrara var fyrir ríkið að stofna félag sem síðar fékk heitið Drómi utan um eignir og tryggingaréttindi SPRON og Frjálsa fjárfestingarbankans í mars árið 2009 en að fara svipaða leið og þegar nýir viðskiptabankar voru stofnaðir á rústum þeirra sem fóru í þrot. Að öðrum kosti hefði ríkissjóður þurft að reiða fram eiginfjárframlag til nýja-SPRON.

Viðskiptahættir Dróma hafa verið talsvert gagnrýndir upp á síðkastið og spurði þingmaðurinn Guðlaugur Þór Þórðarson í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í síðustu viku m.a. að því hvers vegna farin hafi verið önnur leið í bankahruninu í tilviki Dróma en hinna bankanna, þ.e.a.s. þegar nýir bankar voru stofnaðir sem tóku við innlánum og ákveðnum eignum þeirra gömlu.

Sagði mistök að stofna Dróma

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra svaraði því til að fulltrúar Seðlabankans og Fjármáleftirlitsins (FME) hafi lagt til að stofna Dróma eftir að SPRON og dótturfélagið Frjálsi fjárfestingarbankinn fóru í þrot, að innlán yrðu flutt til Arion banka og félag stofnað utan um eignir SPRON, þ.e. kröfur á hendur viðskiptavinum. Hún sagði hins vegar stofnun Dróma óheppilega og lagði til að eignir Dróma verði fluttar annað hvort til Eignasafns Seðlabanka Íslands eða Arion banka.

Lækkaði kostnað ríkissjóðs

Vb.is leitaði svara við því hjá FME hvers vegna Dróma-leiðin hafi verið farin. Í svari FME segir orðrétt:

Fjármálaeftirlitið Fundur
Fjármálaeftirlitið Fundur
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

„Í ákvörðun FME var [...] tiltekið að SPRON skyldi stofna sérstakt hlutafélag (sem fékk síðar nafnið Drómi hf.) að fullu í sinni eigu sem myndi taka við öllum eignum og tryggingarréttindum SPRON. Drómi tók einnig yfir skuldbindingar SPRON gagnvart Arion vegna flutnings á innstæðum og gaf af því tilefni út skuldabréf til Arion, sem samsvaraði yfirteknum innstæðukröfum, með veði í öllum eignum félagsins ásamt hlutafjáreign SPRON í Dróma. Með framangreindri leið var ekki þörf á framkvæmd verðmats á yfirteknum eignum og skuldum til lúkningar uppgjörs milli aðila, sambærilegu því sem þá stóð yfir í mars 2009 vegna yfirtekinna eigna og skulda viðskiptabankanna. Þessi leið hafði einnig lágmarkskostnað í för með sér fyrir ríkissjóð þar sem ella hefði þurft að reiða fram eiginfjárframlag af hans hálfu.“

Vildu tryggja aðgang að innstæðum

Hvað flutning á innstæðunum varðar segir í svari FME að markmiðið með flutningi á innstæðum SPRON til Arion banka hafi verið að tryggja aðgang að þeim og hindra að frekara tjón hlytist af. Í svari FME segir orðrétt:

„Þann sama dag var það ákvörðun Fjármálaeftirlitsins (hér eftir FME) á grundvelli heimilda sinna skv. lögum nr. 125/2008 (svokallaðra neyðarlaga) að taka yfir vald hluthafafundar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. [...] og víkja stjórninni frá þegar í stað, ásamt því að skipuð var skilanefnd [...]. Þá var að sama tilefni tekin ákvörðun um ráðstöfun eigna og skulda SPRON, þ.m.t. að flytja innstæður SPRON til Arion banka, eftir að hafa haft samráð við hlutaðeigandi aðila, þ. á m. Seðlabanka Íslands og viðeigandi ráðuneyti. Var markmið aðgerðanna að tryggja aðgang að innstæðum og hindra að frekara tjón hlytist af á fjármálamarkaði.