Ódýrar var að ferðast frá Manahattan á JFK flugvöllinn með þyrlu en bíl hjá Uber fyrr í þessum mánuði. Samkvæmt gögnum frá Bloomberg kostaði þyrluferðin um tíma 109 dollara, um 13.500 þúsund krónur en til samanburðar kostaði 163 dollara að ferðast með Uber Black, sem er vandaðri leigubílaþjónusta Uber, eða um 20 þúsund krónur.

Þá kostaði ferð með hefðbundnum leigubíl Uber 100 dollara, um 12 þúsund krónur, eða litlu minna en þyrluferðin.

Sjá einnig: Þyrlur keppa við leigubíla

Verð hjá Uber tekur breytingum eftir stað og stund. Uber segir þyrluferðina alla jafna kosta á milli 200 og 225 dollara. Því vekur afsláttur á þyrluferðum athygli. Sér í lagi í ljósi áherslu fyrirtækisins á að veita minni afslátt til neytenda og skila hagnaði frá og með árinu 2021. Uber segir að fargjöldin hafi staðið fáum viðskiptavinum til boða sem valdir hafi verið með tilviljunarkenndum hætti.

Þyrluþjónustan Uber Elevate, hóf rekstur í New York í júlí. Til stendur að hefja tilraunarflug í Dallas, Los Angeles og Melbourne á næsta ári með það að markmiði að verða aðgengileg almenningi frá árinu 2023. Hlutabréfaverð í Uber hefur lækkað um 34% frá því fyrirtækið var skráð á markað í maí.