Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, tekur undir með Aliciu Carrusco , en þau héldu bæði erindi á vorfundi Landsnets. Guðmundur Ingi segir miklar breytingar verða mjög hratt um þessar mundir á sviði raforkumála og í raforkuflutningi.

„Við erum að byggja upp flutningskerfi á grundvelli langtímasjónarmiða á sama tíma og það eru veikleikar í flutningskerfinu sem þarf að styrkja. Það er mjög mikilvægt að gera það með sem hagkvæmustum hætti, auka hagkvæmni innviðanna og nota þá vel,“ segir Guðmundur Ingi. „Við viljum ekki bara byggja upp innviði heldur líka nýta þá betur og nota orkumarkaðinn á sama hátt og allar aðrar þjóðir gera til að bæta nýtinguna á kerfinu og gefa verðmerki til neytenda.“

Þetta væri gert svo raforkunotendur hafi rétta hvata til að laga hegðun sína að þeirri stöðu sem uppi er, en eins og staðan er núna eru orkutoppar sem verða síðdegis krefjandi fyrir flutningskerfið. Innreið rafbíla myndi að óbreyttu auka við þennan topp en með réttum verðhvötum væri hægt að hvata fólk til að hlaða rafbíla yfir nóttina.

„Úti í hinum stóra heimi er markaðsverð á raforku. Það getur verið ódýrara á daginn eða í roki þegar vindmyllur eru á fullu. Það er mikilvægt að fylgjast með því og gefa neytendum færi á að nýta þessar sveiflur. Rafbílaeigandinn vill auðvitað hlaða bílinn þegar það er hagkvæmast. Þessi keðja er flókin en sjálfvirknivæðingin er mikilvæg vegna þess að við getum til dæmis haft lítið tæki sem sér um þessa stjórnun fyrir eigandann,“ segir Guðmundur Ingi.

„Eina sem tækið þyrfti að vita er hvert verðið er og það ákveður þetta fyrir mann.“ Guðmundur Ingi nefndi í erindi sínu að í öllum sviðsmyndum orkuspárnefndar væri gert ráð fyrir aukinni eftirspurn eftir raforku og aukinni flutningsþörf. „Við erum að sjá miklar breytingar í framboðinu og nýja framleiðendur koma inn á markað. Þannig sjáum við bæði smávirkjanir í vatnsafli og heyrðum að það er verið að skoða litla jarðgufustöð á Flúðum, vindmyllur og jafnvel sólarsellur koma inn,“ segir Guðmundur Ingi.

„Svo er alveg rétt að það eru miklar takmarkanir í flutningskerfinu. Við þurfum að bregðast við því og sjáum sem betur fer að við erum að komast áfram með sumar styrkingar sem við höfum verið að tala fyrir, sérstaklega fyrir norðan. En það er mjög mikilvægt að styrkja grunninnviðina, því þar hefur verið allt of langt hlé.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .