Lækkun olíuverðs hefur haft áhrif til lækkunar á eldsneytisverði til íslenskra neytenda en lækkun eldsneytisverðs á Íslandi sé minni en lækkun á Brent-Norðursjávarolíu. Þetta kemur fram í frétt á vef Íslandsbanka þar sem greint er frá áhrifum olíuverðslækkana á Íslandi. Þar kemur fram að verð á Brent Norðursjávarolíu hefur ekki verið lægra í ellefu ár og hefur lækkað um 45% frá því í maí. Greining Íslandsbanka sýnir að vísitala sem mælir þróunina á 95 oktana bensíni stóð hvað hæst á þessu ári um miðjan júní og hefur frá þeim tíma lækkað um 30% í krónum talið.

Olíufélögin íslensku hafa lækkað útsöluverð á eldsneyti talsvert á undanförnum mánuðum. Algengt lítraverð á 95 oktana bensíni í sjálfsafgreiðslu er nú á bilinu 186,5 til 195,2 krónur en var um miðjan júní á bilinu 225,5 til 227,7 krónur. Lækkunin er því að meðaltali um 14% á á tímabilinu fyrir bensín en verð á díselolíu hefur lækkað um rúm 16% á sama tíma.

Opinber gjöld miða við fasta krónutölu

Minnst er á hversu mikil áhrif opinber gjöld hafa á verðlagningu eldsneytis hér á landi í greiningu Íslandsbanka en hún er að stórum hluta í fastri krónutölu og lækkar því ekki í hlutfalli við lækkun innkaupaverðs. Sé tekið tillit til þess og rekstrarkostnaði olíufélaganna má áætla að þau hafi lækkað verð á bensínlítranum, að frátöldum krónutölukostnaði, um 28% en dísel um 29% frá því í júní.

Hér má lesa greiningu Íslandsbanka.