Dohop hefur tekið saman verð á flugi frá Íslandi næstu vikur og borið saman verð til áfangastaða þer sem samkeppni er á markaðnum. Við gerð verðkönnunarinnar var gert ráð fyrir einum farþega sem hefur eina ferðatösku og eina tösku í handfarangur sem er minna en 5 kíló að þyngd.

Þannig verður rétt rúmlega 30 þúsund króna meðalverð á flugmiða fram og til baka til London með WOW air að næstum 40 þúsund krónum að viðbættri einni ferðatösku og bókunargjaldi, en tösku- og bókunargjald er orðið 25% af heildarverði flugmiðans. Fargjald Icelandair, 40 þúsund krónur, breytist hins vegar ekkert.

Það sem virðist í fyrstu vera 10 þúsund króna verðmunur verður því aðeins tæplega þúsund króna munur þegar uppi er staðið. Sleppi viðkomandi því að taka með sér ferðatösku helst meðalverð WOW air til London þó 30.990 krónur.

Séu farþegar þó tilbúnir að sleppa ferðatöskunni er WOW air ódýrasti kosturinn á flugi til allra áfangastaða þar sem einhver samkeppni er; Parísar, London og Kaupmannahafnar. Norwegian er hins vegar ódýrasta flugfélagið sem flýgur til Oslóar.

Þá er Icelandair ódýrara en easyJet til London þegar miðað er við að farþeginn hafi með sér eina tösku, en sleppi farþeginn töskunni er meðalverð flugfélaganna það sama, eða 40 þúsund krónur.