*

miðvikudagur, 27. janúar 2021
Erlent 27. nóvember 2020 07:14

Ódýrasta Þakkargjörðin frá 2010

Kalkúnn kostaði 7% minna í ár en í fyrra í Bandaríkjunum. Máltíðin með öllu fyrir 10 manns á um 6.400 krónur.

Ritstjórn

Bandaríkjamenn fögnuðu Þakkargjörð í gær, þar sem hefðbundið er að sækja fjölskyldu og vini heim og borða vel útilátið af kalkúni og ýmsu meðlæti, en í þetta sinn var máltíðin sú ódýrasta síðan 2010 eftir 4% verðlækkun frá síðasta ári.

Þetta kemur fram í árlegri könnun bandarísku landbúnaðarsamtakanna, en þetta er í 35. sinn sem hún er gerð. Samkvæmt könnuninni var meðalkostnaðurinn á máltíð fyrir 10 einstaklinga 46,90 Bandaríkjadalir, sem samsvarar um 6.357 íslenskum krónum.

Þar af var kalkúninn sjálfur um 7% ódýrari en á síðasta ári, eða á einungis 19,39 dalir, eða sem samsvarar 2.628 krónum. Miðað er við 16 punda kalkún sem er ríflega 7 kíló.

„Verðlagning á kalkún með leiðandi afsláttarkjörum til að æsa upp í viðskiptavinum og koma öðrum vörum út er herkænska sem við sjáum yfir hátíðirnar,“ hefur yahoo finance eftir John Newton, aðalhagfræðingi samtakanna.

Þrátt fyrir truflanir á birgðalínum kalkúna á árinu vegna kórónuveirufaraldursins var framboðið nægt. Í verðmælingu samtakanna er auk kalkúnsins gert ráð fyrir fyllingu, sætum kartöflum, brauðbollur með smjöri, baunir, trönuber, grænmeti og graskersbaka með rjóma, kaffi og mjólk.

Skammtastærðin eins og Bandaríkjamönnum er lagið á að duga 10 manns, ásamt því að gert er ráð fyrir nægum afgangi. Þær vörur sem hækkuðu í verði voru á móti brauðbollurnar, fyllingin og graskersbökuduftið.

Fyrir utan minni kostnað við matinn er búist við að Bandaríkjamenn hafi eytt minna í ferðalög þessa Þakkargjörðina vegna smithættu og viðvarana um að draga úr þeim.

Ferðakostnaðurinn hefur að þeim sökum dregist saman um einhver 10% á árinu, og hefur verðlækkunin ekki verið meiri síðan árið 2008. Þannig eru flugfargjöld milli New York borgar og Dallas í Texas, fram og til baka, búin að lækka um 41% frá meðaltali áranna 2019 og 2018.