Indverski bílaframleiðandinn Tata Motors mun á morgun hefja markaðssetningu á Nano, þriggja metra bíl sem sagður er vera sá minnsti í heimi og kostar jafnvirði 1.979 dollara eða 225 þúsund íslenskra króna.

Sagt er að tilkoma hans muni gera fátækara fólki í heiminum kleift að eignast í fyrsta sinn farartæki á fjórum hjólum. Bíllinn er fjögurra dyra og rúmar fimm manns. Hann er með 33ja hestafla og 624 cc vél sem er komið fyrir aftur í bílnum. Bíllinn er ekki búinn munaði eins og loftpúðum, loftkælingu, útvarpi eða vökvastýri, eins og kannski gefur að skilja.

Fram kemur á fréttavef BBC að Tata Motors hafi átt í miklum fjárhagserfiðleikum og eigi í vandræðum með að endurfjármagna lán upp á tvo milljarða bandaríkjadala af þeim þremur sem það tók til þess að kaupa Jaguar og Land Rover vörumerkin af Ford Motor í júní sl.