Fermetraverð íbúðahúsnæðis er hæst á höfuðborgarsvæðinu og var það sem af er ári 315 þúsund krónur að meðaltali. Dýrustu póstnúmerin eru í miðbænum en ódýrustu póstnúmerin í Breiðholtinu. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Greiningar Íslandsbanka um íbúðamarkaðinn sem kynnt var í menningarhúsinu Hofi á Akureyri síðastliðinn miðvikudag.

Þar kemur fram að á árinu 2010 hafa íbúðir í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 44,7% og sérbýli um 20,7%. Á árinu 2015 nam hækkun í fjölbýli 7,7% og hækkun sérbýla 4,5%. Dýrustu fjölbýlin eru í 101 Reykjavík og kostaði fermetrinn þar um 421 þúsund krónur að meðaltali fyrstu þrjá fjórðunga ársins 2015. Fermetrinn í þessu hverfi hefur hækkað mest af öllum á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2010 eða um rúm 62%. Næst dýrasta hverfið er póstnúmer 107 en þar er fermetraverðið um 363 þúsund krónur.

Fermetraverð á höfuðborgarsvæðinu. Greining Íslandsbanka.
Fermetraverð á höfuðborgarsvæðinu. Greining Íslandsbanka.

Fjölbýli eru ódýrust í póstnúmeri 111 þar sem þau seldust að meðaltali á rúmar 262 þúsund krónur á þessu ári. Fermetrinn er næst ódýrastur í póstnúmeri 109 á um 266 þúsund krónur. Þessi tvö hverfi eru á meðal þriggja hverfa þar sem fjölbýli hafa hækkað mest á árinu 2015. Mesta hækkunin átti sér stað í póstnúmerum 108 og 109 þar sem meðal fermetraverð hækkaði um rúm 11% . Dýrustu sérbýlin eru í miðbæ Reykjavíkur en fermetraverð sérbýla á því svæði nam rúmum 388 þús. kr. að meðaltali á árinu 2015. Á höfuðborgarsvæðinu hefur fermetraverð sérbýla í póstnúmerum 104 (51,3%), 101 (44,1%) og 107 (42,9%) hækkað mest frá árinu 2010.

Fermetraverð á höfuðborgarsvæðinu. Greining Íslandsbanka.
Fermetraverð á höfuðborgarsvæðinu. Greining Íslandsbanka.

Hæsta fermetraverð á höfuðborgarsvæðinu er á íbúðum í stærðarflokki 0-70 m2 eða um 383 þúsund krónur. Hefur verð slíkra íbúða hækkað um 53% frá því á árinu 2010. Íbúðir í stærðarflokknum 210+ m2 kostuðu um 255 þúsund krónur og munar því um 50% á fermetraverði íbúða í stærsta og minnsta stærðarflokknum. Til samanburðar þá nam þessi munur 15% þegar íbúðaverð var með hæsta móti fyrir hrun.