Amazon tryggði sér lægsta lántökukostnað í sögu skuldabréfamarkaða Bandaríkjanna í gær. Fyrirtækið safnaði um tíu milljarða dollara á útboði í gær sem felur meðal annars í sér þriggja ára skuldabréf með 0,4% nafnvöxtum, samkvæmt heimildum Financial Times .

Vextir þriggja ára skuldabréfanna voru innan við 0,2% hærri en bandarísk ríkisskuldabréf af sambærilegri lengd sem gefin voru út í síðasta mánuði sem verður að teljast merkilegt miðað við að skuldabréf Amazon skilgreindust sem áhættubréf (e. junk bond) árið 2009.

Amazon borgaði um 1,9% vexti á þriggja ára skuldabréfum sem félagið gaf út árið 2017 til að fjármagna kaupin á Whole Foods smásölukeðjunni . Vextirnir sem Amazon tryggði sér í gær voru lægri en fyrra metið sem slegið var 2012 og 2013 af fyrirtækjum á borð við Apple, IBM og Walt Disney sem seldu bréf með 0,45% vöxtum.

Amazon tryggði sér einnig sjö ára skuldabréf með 1,2% nafnvöxtum og tíu ára bréf með 1,5% vöxtum sem slær einnig met heildsalans Costco. Amazon gaf einnig út 30 og 40 ára bréf í gær. Fimm ára skuldabréf sem Amazon gaf út í gær jafna met lyfjafyrirtækisins Pfizer frá því í síðasta mánuði með 0,8% nafnvöxtum.

Fjárfestar hafa verið að flykkjast í skuldabréf margra stöndugra fyrirtækja eftir að Seðlabanki Bandaríkjanna tilkynnti í mars um að hann myndi kaupa fyrirtækjabréf sem hluti af magnbundinni íhlutun bankans.

Aðgerðir seðlabankans hafa dregið úr lántökukostnaði fyrirtækja sem náði tíu ára hámarki í mars eftir mikla sölu skuldabréfa vegna ástandsins sem skapaðist í kringum heimsfaraldurinn þegar eftirspurnin eftir fjármagni jókst mikið.

Amazon hefur sagt að fjármagnið úr skuldabréfaútboðinu verði notað fyrir almennan rekstur fyrirtækisins. Félagið er um þessar mundir í viðræðum um kaup á Zoox , fyrirtæki sem sérhæfir sig í sjálfkeyrandi bílum.