Vöxtur í alþjóðahagkerfinu er meiri heldur en hann hefur verið í langan tíma sökum þess að ekkert lát virðist vera á efnahagsuppgangi í Kína, en einnig - og ekki síður - vegna þess að hagvöxtur á evrusvæðinu hefur tekið hressilega við sér. Sú staðreynd vegur upp á móti því að sá samdráttur sem farinn er að gera vart við sig í bandaríska hagkerfinu er meiri heldur en menn höfðu áður haldið. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um horfur í hagkerfum heimsins sem var kynnt í gær.

OECD hækkaði fyrri spá sína um hagvöxt á evrusvæðinu á sama tíma og stofnunin telur að hagvöxtur í Bandaríkjunum á þessu ári verði minni heldur en áður hafði verið gert ráð fyrir. Jean-Philippe Cotis, aðalhagfræðingur OECD, segir í viðtali við Dow Jones fréttaveituna í gær að það væri orðið einsýnt að það mætti rekja aukin efnahagsvöxt á evrusvæðinu til Þýskalands og Ítalíu. Efnahagsbati Þýskalands, sem endurspeglast í auknum hagvexti og minnkandi atvinnuleysi, hefur fylgt í kjölfar þess að ríkisstjórn Angelu Merkel ákvað að ráðast í umbætur í efnahags- og atvinnumálum.

Það kemur hins vegar mun meira á óvart að ítalska hagkerfið sé farið að taka við sér. Aðeins tvö ár eru síðan að breska vikuritið The Economist sagði að Ítalía væri "hinn raunverulegi veiki maður í Evrópu". Cotis segir að OECD hafi haft efasemdir um að Ítalía yrði eitt þeirra ríkja sem ætti mestan þátt í efnahagslegum viðsnúningi á evrusvæðinu, en samkeppnishæfni þarlendra fyrirtækja hefur versnað verulega á undanförnum árum. Engu að síður virðist raunin vera sú að ítölsk útflutningsfyrirtæki hafi hagnast mikið á þeim aukna hagvexti sem hefur orðið í Þýskalandi síðastliðin tvö ár.

Mælt með stífri peningamálastefnu
Það bendir flest til þess að hagvöxtur í Kína, fjórða stærsta hagkerfi heimsins, verði enn eitt árið meiri heldur en tíu prósent, en í skýrslu OECD segir að þessi mikli vöxtur í Kína gæti leitt til efnahagslegs óstöðugleika í landinu. Það er mælt með því að kínversk stjórnvöld ráðist í ákveðnar aðgerðir til þess að koma í veg fyrir að svo verði; meðal annars er Kínverjum ráðlagt að leyfa gjaldmiðli sínum að hækka til þess að minnka vaxandi verðbólguþrýsting og koma á meira jafnvægi í milliríkjaviðskiptum.

OECD kallar eftir því að seðlabankar á heimsvísu sýni fyllstu vargætni gagnvart þeim vísbendingum sem farið er að bera á um aukinn verðbólguþrýsting. Seðlabankar ættu fremur að velja þann kost að framfylgja stífri peningamálastefnu til þess að tryggja það að verðbólga verði ekki að raunverulegu vandamáli víðsvegar um heim. Á þessu er þó ein undantekning segir OECD: Japansbanki ætti hvorki að hækka né lækka stýrivexti sína á næstunni, heldur að viðhalda þeim í 0,5% í eitt ár til viðbótar. Þrátt fyrir að hagvöxtur hafi aukist verulega í Japan að undanförnu þá hafa laun ekki hækkað jafn mikið og búist hafði verið við, auk þess sem einkaneysla á enn eftir að taka við sér. Engu að síður hafa flestir hagfræðingar - og bankinn raunar gefið það sterklega til kynna - spáð því að Japansbanki muni mjög líklega hækka stýrivexti sína á næstunni.

Ekki um hættuástand að ræða
Svokölluð kjarnaverðbólga - verðbólga án orku-, matvæla-, áfengis- og tóbaksliða - í bandaríska hagkerfinu er einn hugsanlegur áhættuþáttur varðandi áframhaldandi vöxt í alþjóðahagkerfinu, segir í skýrslu OECD. Af þeim sökum er það mat OECD að Seðlabanki Bandaríkjanna ætti að bíða þangað til snemma á næsta ári með að lækka hjá sér stýrivexti, nema ef til þess kemur að slæm skuldastaða einstaklinga á fasteignamarkaðinum fari að smita út frá sér með víðtækum afleiðingum fyrir hagkerfi landsins.
Cotis segir að ef spá OECD um aukin hagvöxt á evrusvæðinu á þessu ári gangi eftir muni það leiða til þess að Seðlabanki Evrópu hækki stýrivexti sína að minnsta kosti tvívegis um 0,25 prósentustig, upp í 4,25%. OECD telur einnig að það séu sterk rök fyrir því að Englandsbanki þurfi að hækka stýrivexti enn frekar á árinu, enda þótt bankinn hafi fylgt mjög stífri peningamálastefnu undanfarin misseri.

Þrátt fyrir miklar hækkanir á hlutabréfamörkuðum þá er ekki hægt að líkja ástandinu við það sem var til staðar í lok tíunda áratugarins, segir OECD. Um slíka hlutabréfabólu er ekki að ræða um þessar mundir og því fer fjarri að stutt sé í einhverskonar hættuástand í alþjóðahagkerfinu. Cotis segir hins vegar að til þess að slíkt ástand verði ekki að veruleika þurfi ríkisstjórnir og seðlabankar að haga stefnu sinni skynsamlega og taka mark á þeim varnarorðum sem þeim berast. Annars er möguleiki á því að endurtekning verði á þeim efnahagsvandræðum sem alþjóðahagkerfið gekk í gegnum í lok níunda og tíunda áratugarins.