Flest af stærri hagkerfum heims hafa eða eru við það að nálgast botninn um þessar mundir og gera má ráð fyrir hægum bata á næstu misserum.

Þetta kemur fram í nýrri efnahagsspá OECD en stofnunin segir að apríl s.l. hafi í raun verið sá mánuður þar sem hægt er að segja að hagkerfin hafi farið að sýna batamerki og nú liggi leiðin að mestu upp á við. Stofnunin tekur þó fram að um hægfara ferli sé að ræða og en ítrekar að full ástæða sé til að gleðjast yfir batamerkjum.

Fram kemur í spá OECD að framleiðsluvísitala ríkjanna innan sambandsins hafi aukist um 0,5% í apríl og hefur þá aukist tvo mánuði í röð. Vísitalan hefur engu að síður lækkað um 8,3% milli ára.

Stofnunin segir að stærstu hagkerfin, svo sem evrusvæðið, Bretland, Bandaríkin, Mexíkó, Kanada og Japan sýni nú hægfara batamerki í stað „hjöðnunar“ eins og stofnunin skilgreindi hagkerfi ríkjanna fyrir nokkrum mánuðum.

Stofnunin tekur þó fram í spá sinni að enn er of snemmt að segja til um hvort hér sé um varanlegt bataferli að ræða þó svo að hún kjósi að túlka niðurstöður sínar þannig. Þannig er settur sá fyrirvari á að um stutt tímabil sé að ræða þar sem efnahagskerfin taka við sér.