OECD varar við því að Omíkron-afbrigðið gæti haft þær afleiðingar að framboðsskortur í heimshagkerfinu af völdum flöskuhálsa í virðiskeðjum ílengist. Viðvörunin rímar við nýja desemberspá OECD um hægari vöxt og aukinn verðbólguþrýsting í heimshagkerfinu, miðað við fyrri spár. Þetta kemur fram í grein Financial Times.

OECD hefur hækkað spár sínar um verðbólgu fyrir næsta ár. Efnahags- og framfarastofnunin spáði, í september síðastliðnum, að verðbólga í Bandaríkjunum og Bretlandi yrði um 3,1% árið 2022 en hefur nú hækkað verðbólguspána í 4,4%. Jafnframt hefur OECD hækkað verðbólguspár sínar fyrir G20 ríkin úr 3,9% í 4,4%.

Laurence Boone, aðalhagfræðingur OECD, segir í samtali við Financial Times að nýja afbrigðið auki óvissu og geti ógnað endurreisn heimshagkerfisins. OECD spáir 4,4% hagvexti G20 ríkjanna á næsta ári og 3,8% á árinu 2023.

Jay Powell, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, sagði í gær að þrálát verðbólga gæti leitt til þess að seðlabankinn stígi á bremsuna og dragi úr stuðningi sínum við hagkerfið. Powell sagði jafnframt að hann myndi hætta að tala um verðbólguna sem „skammvinna“.