Frystihús Samherja á Dalvík
Frystihús Samherja á Dalvík
© Björgvin Guðmundsson (VB Mynd/BG)
Íslandi hefur gengið vel að stýra sjávarútvegi, þökk sé fiskveiðum sem byggja á hafrannsóknum og kvótakerfi, sem hvetur kvótaeigendur til að viðhalda fisknum í sjónum. Þetta segir í nýrri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um þróun efnahagsmála hér á landi. Skýrslan var kynnt af fulltrúum OECD á blaðamannafundi í dag. Þeir tóku fram að kafli um kvótakerfið tengist ekki beint umræðunni um kvótakerfið í dag heldur sé hún almenns eðlis, enda hafi verið rætt um breytingar á fiskveiðistjórnun í langan tíma á Íslandi.

Í skýrslunni segir að kvótakerfinu sé ógnað af mögulegum breytingum, sem er kallað eftir vegna þeirrar ósanngirni sem mörgum þykir hafa verið ríkjandi við úthlutun kvótans, og einnig af mögulegri inngöngu í ESB.

Fulltrúar OECD bentu á að það sé ekkert sem stjórnvöld í dag geta gert til þess að afturkalla ósanngirnina, þar sem flestir núverandi eigendur kvótans keyptu hann á markaði en fengu ekki úthlutað.

„Engu að síður, til að styrkja pólitískan samhljóðan um kvótakerfið, ættu stjórnvöld að hækka veiðigjöld,“ segja skýrsluhöfundar. Gjöldin megi þó ekki valda sjávarútvegsfyrirtækjum fjárhagsvandræðum né eyðileggja kvótakerfið.