Efnahagsspá OECD fyrir Ísland hefur verið hækkuð og er nú gert ráð fyrir 5,9% hagvexti hér á landi í ár, 5,2% á næsta ári og 4,8% árið 2006. Þetta er meiri hagvöxtur en gert er ráð fyrir í síðustu spá fjármálaráðuneytisins sem hljóðar upp á 5,5% hagvöxt í ár, 5% á næsta ári og 4,5% árið 2006. Hagfræðingar OECD áætla að verðbólga hér á landi verði 3,9% næstu tvö árin og að hún muni á einhverju tímabili fara yfir 4% þolmörk Seðlabankans.

Einnig er gert ráð fyrir að viðskiptahalli geti nálgast 12% af VLF. Áréttað er
að þörf sé á umtalsverðum vaxtahækkunum til að sporna við ofþenslu og að
gæta þurfi aðhalds í ríkisfjármálum. Tímasetning skattalækkana er ekki góð
að mati OECD og betra hefði verið að fresta þeim. Helstu áhættuþættir í
spánni eru taldir ónógt aðhald í ríkisfjármálum og að verðbólga og launahækkanir fari úr böndunum.

Samkvæmt nýbirtri efnahagsspá OECD hefur hægt á hagvexti í heiminum að
undanförnu, meðal annars vegna áhrifa hærra olíuverðs. Hagvaxtarspá OECD er örlítið lægri en spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá því í september en mestur er munurinn á spám fyrir evrusvæðið og Japan en lítil breyting á spá fyrir Bandaríkin.

Í spá OECD kemur fram að hækkun olíuverðs hafi haft töluverð áhrif á
væntingar neytenda og fyrirtækjastjórnenda enda mikið fjallað um þróun á
olíumörkuðum í fjölmiðlum. Það hafi hins vegar sýnt sig að olíuverð hafi
ekki nærri því eins mikil áhrif á hagvöxt og það gerði áður og að það hafi
ekki haft áhrif á kjarnaverðbólgu.

Hagfræðingar OECD telja aðaláhættuþáttinn í spánni vera þróun olíuverðs en
ef það helst hátt áfram eða hækkar enn frekar gæti það haft meiri áhrif á
hagvöxt, verðbólgu og atvinnuleysi en spálíkön OECD sýna. Meðal annarra
áhættuþátta er halli á ríkisfjármálum víða og viðvarandi viðskiptahalli í Bandaríkjunum.

Byggt á vefriti fjármálaráðuneytisins.